RAMMAGERÐIN X MORRA

RAMMAGERÐIN X MORRA

Fatahönnuðurinn Signý Þórhallsdóttir hóf ferilinn hjá Vivienne Westwood og vekur nú mikla athygli fyrir gullfallegt áprentað silki.

Hjá mér kom eiginlega aldrei annað til greina en að fara í listnám. Mér fannst það einfaldlega sameina allt sem mér þótti skemmtilegast,

Hún byrjaði í starfsnámi hjá breska fatahönnuðinum Vivienne Westwood í Lundúnum og fékk í kjölfarið starf sem hönnuður þar sem hún vann í þrjú ár fyrir það heimskunna tískuhús.


„Þótt stúdíóið hjá Vivienne Westwood sé rótgróið leggur það enn mikinn metnað í hönnunarvinnuna og sköpunargleðin er enn kjarninn í fyrirtækinu. Það er ótrúlega skemmtilegt og krefjandi að vinna í þannig umhverfi, og maður komst líka upp á lagið með að vinna með söguna, sem einkennir svolítið hönnunarmenninguna í Bretlandi,“ segir Signý.


Amma og afi áhrifavaldar

Signý hannar fádæma flottar silkislæður, silkisloppa og fleira sem slegið hefur í gegn undir merkinu Morra.

„Morra er tilbúið nafn úr mörgu sem mér þykir áhugavert eða skemmtilegt. Fyrir mér er Morra einskonar persónuleg sköpunargyðja sem gefur mér vettvang til að gera það sem mér þykir gaman,“ upplýsir Signý um tilurð nafnsins.

Orðið hönnun var þó ekki efst í huga hennar í æsku.

„En amma mín og afi í föðurætt voru iðin við saumaskap og smíðar og bjuggu til alls kyns hluti sem höfðu áhrif á mig,“ segir Signý um sína fyrstu áhrifavalda í hönnun og sköpunarverki.

Andagiftin berst henni víða að.

„Þegar ég bjó í London fannst mér ekkert skemmtilegra en að fara á söfn, að skoða til dæmis myndlistarsýningar í Royal Academy og handverk á Victoria- og Albert-safninu. En eftir að ég fluttist aftur heim til Íslands leita ég meira í náttúruna. Hér jafnast ekkert á við að vera einhvers staðar úti við þegar kemur að litum og áferðum. Ég grúska líka og skoða mikið handbragð fyrri tíma,“ greinir Signý frá.


Meira krydd í tjáninguna

Signý leggur áherslu á prent í sínu sköpunarverki og notar eingöngu náttúruleg og umhverfisvæn efni.

„Þegar ég var unglingur dútlaði ég mikið í skissubækur en ég hugsa að áhuginn hafi kviknað af alvöru þegar ég lærði að silkiþrykkja í Listaháskólanum. Stuttu seinna komst ég að því að iðnaðurinn í kringum prentaðan textíl er mun stærri en mig hafði grunað; heill heimur af prentum,“ segir Signý og bætir við að eftir útskrift hafi ekki annað komið til greina en að fara í starfsnám hjá prenthönnuði í New York til að kynna sér þann heim betur.

„Þegar ég hanna prentin byrja ég yfirleitt á að gera skissur með bleki eða gvasslitum sem ég vinn svo áfram í prent. Undanfarið hef ég svo verið að gera tilraunir með snið og hanna flíkur á sem þvívíðastan hátt. Munstur geta bætt öðru lagi ofan á lúkkið og sett aðeins meira krydd í tjáninguna. Mér finnst áhugavert að para munstraðar flíkur saman við eitthvað annað, til dæmis áferðarmikil efni eða aðra mynstraða flík.“


Hægt að verða háður silkislæðum

Silkislæður Signýjar eru ægifögur listaverk.

„Silkislæða setur punktinn yfir i-ið eins og fallegur skartgripur,“ segir Signý. „Ég er hugfangin af silkislæðum því þær eru tímalausir fylgihlutir sem hægt er að para við svo margt og klæðast á svo ólíkan hátt. Sumum þykja silkislæður of sparilegar og eru hrædd við að klæðast þeim en mér finnst þær einmitt fallegar, bæði spari og hvunndags. Ég hef sérstaklega gaman af því að para þær saman við groddaralegri hluti, stóra jakka eða gallabuxur og hef klæðst mínum mikið við hversdagsleg tilefni. Silkislæður eru líka svo ofsalega þægilegar og mjúkar upp við hálsinn að maður verður háður þeim,“ segir Signý og hlær.

Hönnun hennar er eftirsóknarverð enda einstaklega fögur, kvenleg og heillandi.

„Akkúrat núna er ég stoltust af nýjustu fatalínunni minni, Colorise II. Þegar ég hanna fatnað og slæður hef ég í huga manneskjur sem vilja klæðast vönduðum flíkum með nútímalegu en jafnframt afslöppuðu yfirbragði.“



Oft farið í jólaköttinn

Signý segist margoft hafa farið í jólaköttinn.

„Mér hefur alltaf þótt gaman að klæða mig upp um jólin og yfirleitt vel ég eitthvað sem er sparilegt en jafnframt þægilegt og hentar vel fyrir langt og gott borðhald. Þegar ég hef ekki fengið nýja flík fyrir jólin hef ég blíðkað jólaköttinn með nýjum samsetningum við eldra sparidress. Um áramótin gef ég svo meira í, fer í prentaðan silkikjól og pinnahæla og bæti smá glimmeri við,“ gefur Signý upp, en hvert er hennar besta tískuráð fyrir jóli og áramót?

„Það er að njóta þess að klæða sig upp og leyfa sér að vera fínn yfir hátíðarnar. Svo mæli ég líka með að taka smá tíma í núvitund og strauja fötin sín,“ segir Signý glettin.


Hér má sjá eina af slæðunum úr línunni Fjara sem Signý vann í samstarfi við Rammagerðina.Silkislæðurnar í Fjöru vísa í hinar ýmsu sjávarverur og fyrirbæri sem finnast í íslenskum sjó og fjöru.

Slæður Signýjar fást í öllum verslunum Rammagerðarinnar en Signý á í spennandi samstarfi við Rammagerðina með línu af slæðum sem hún nefnir „Fjara“. Skemmtilegt er að geta þess að Signý skreytti einnig glugga Rammagerðarinnar í þetta sinn með myndformum sem koma einnig fyrir í slæðunum; rauðum og mjög jólalegum þara.

„Auður frá Rammagerðinni hafði samband við mig í fyrra og datt í hug hvort ég væri til í að prófa að gera hugmynd af tóbaksklút fyrir Rammagerðina og vinna með höfnina sem þema. Verkefnið vatt heldur betur upp á sig og fór úr því að vera einn klútur upp í að vera sex silkislæður þar sem hafið er í aðalhlutverki. Línan ber nafnið Fjara og vísar í hinar ýmsu sjávarverur og fyrirbæri sem finnast við fjöruborðið og í sjónum. Teikningarnar eru handmálaðar og við ákváðum að hafa litina svolítið leikandi til að vega upp á móti kuldanum úr sjónum,“ segir Signý um glæstan afrakstur samtarfsins.


Grein fengin frá frettabladid.is - Lestu viðtalið í heild sinni hér

← Eldri færslur Nýrri færslur →

Hönnuðir

RSS
Jólakötturinn 2023

Jólakötturinn 2023

Jólakettir Rammagerðarinnar árið 2023 voru hannaðir af Birni Steinari Blumenstein. Björn er einstakur hönnuður að því leiti að hann leggur mikið upp úr því að...

Lesa meira
Aldís keramiker

Aldís keramiker

Við kíktum í heimsókn til Aldísar í fallega stúdíóið þar sem hún hefur aðstöðu til að renna vörurnar sem hún hannar.

Lesa meira