Sigrún Halla Unnarsdóttir fatahönnuður hefur verið með annan fótinn í prjónahönnun í tæpan áratug og vinnur í prjónaverksmiðju VARMA við sníðagerð og vöruþróun fyrir VARMA.
Við erum svo lánsöm að eiga frábæra ull og prjónaverksmiðjuna VARMA sem heldur vörð um bæði hráefnið og þessa arfleið okkar, að vinna úr íslensku ullinni. Eftir að ég komst með tærnar þangað inn hefur verið erfitt að losna við mig. Ég hef verið í algjörri forréttindastöðu að geta valsað þar um, en það er einstakt að hafa prjónaverksmiðju inni í miðri borg,” segir hún.
„Að vinna með ullina er hluti af stórmerkilegri iðnsögu okkar Íslendinga og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt þar. Ég er farin að átta mig á því að ég hljóma stundum eins og Guðni Ágústsson, en í kringum árið 1800 voru 26 pör af handprjónuðum duggarasokkum jafnmikils virði og 120 fiskar. Það hlýtur að hafa verið frábær núvitund á þessum tímum.
Ullin er arfleifð sem við eigum að vera stolt af en á sama tíma vera óhrædd við að leyfa henni að þróast með okkur.”
Hvar er vinnustofa/studióið þitt/ykkar staðsett:
Ég er hönnuður og listrænn stjórnandi hjá VARMA sem er staðsett í Ármúla 31. Þar hef ég komið mér vel fyrir í kjör aðstöðu til flakka á milli véla salarins, þvottahússins og saumastofunnar.
Hvar lærðir þú/þið:
Ég er með mastersgráðu í fatahönnun frá Kolding School of Design í Danmörku.
Hugmyndafræðin/innblástur á bak við þína/ykkar hönnun:
Hugmyndafræðin mín er virðing og væntumþykja fyrir því sem á undan okkur kom og eftirvænting fyrir því sem koma skal. Umhverfið sem ég er í er líka mjög mótandi. Ég er núna mikið á verksmiðjugólfinu innan um prjónavélar svo að alvöru íslenskur iðnaður setur mark sitt á mig, að finna fyrir arfleiðinni sem ullarvinnsla byggir á, reynslunni og auðnum í fólkinu sem vinnur við hana og möguleikunum sem við höfum til framtíðar.
Hvað telur þú vera sérkenni íslenskrar hönnunar:
Hún einkennist af því hvað íslenskir hönnuðir eru yfirgengilega hugrakkir.